fimmtudagur, desember 29, 2005
Rakettur og sprengingar
Rétt í þessu var pabbi að koma með rosalega yfirlýsingu um það að hann hatar sprengingar.
Hann ætlar ALDREI að kaupa neinar rakettur eða drasl aftur. Þetta hræðir öll dýr, hesta, hunda, ketti, kýr, kindur, fugla, refabú tjúllast og síðan er svo mikil mengun af þessu, drasl úti um allt og allskonar ógeð.
"Ég ákvað að gerast fanatískur í þessum málum," sagði hann, maðurinn sem státar sig af því að vera aldrei fanatískur. Hahaha, já einhversstaðar frá hef ég fengið mína fanatík.
En ég hef skemmtilega sögu af kettinum mínum að segja. Einum af þeim, Simba (Dimb).
Það var nefnilega þannig að ég var að horfa á DVD með systur minni henni Dagnýju Höllu og kötturinn var uppi á ofninum. Svo skemmtilega vill til að það er rofi (kveikja og slökkva-rofi) fyrir ofan ofninn, úti á enda á veggnum. Þannig vill líka til að DVD-tækið er tengt í gegnum rofann, og ef maður vill kveikja á DVD-inu þá þarf maður að kveikja fyrst á rofanum.
En já.
Allt í einu heyrist hvellur og kötturinn spýtist margfalda hæð sína upp í loftið (það að hann var á ofninum hefur eitthvað með hæðina að segja) og teppið á ofninum flaug á gólfið. Kötturinn lenti, eftir stórt heljarstökk, á hlið (kettir lenda á fótunum hvað?) og það slokknaði á því sem við vorum að horfa á og ljósinu líka. Við horfum á köttinn, og hugsum um hvað í ósköpunum hafi gerst, og þá datt mér í hug að það hefði slegið út og kötturinn fengið straum og þ.a.l. spýst upp í loftið. Ég tek köttinn og hugga hann, en þá fatta ég að blaðabunki sem var á sófanum rétt hjá ofninum, hafði dottið niður með hvelli og kettinum brugðið svo svakalega að hann hafi skotist upp í loft, rekið sig í rofann og slökkt á öllu heila klabbinu!
Þegar við uppgötvuðum hvað gerst hafði sprungum við úr hlátri, eins og þegar Freddi klístraðist á vegginn þarna um daginn. Það er ekkert eðlilegt hversu fyndin þessi kattarassgöt geta verið, þau lífga aldeilis upp daginn hjá manni.
Þá kveð ég að sinni.
Gleðilegt ár!
Unnur Birna 20:22 #