sunnudagur, desember 25, 2005
Jóladagur
Jæja, þá er aðfangadagurinn liðinn, pakkarnir opnaðir og maturinn borðaður.
Jóladagur er genginn í garð og kominn vel á leið. Ég fékk svo margar fallegar gjafir að ég bara á hreint ekki orð. Pabbi var svo flottur á því og gaf okkur kellunum öllum nýjustu og bestu ilmvötnin, ég fékk Giorgio Armani - Armani Mania, það svipar til Sensi, sem ég fékk í hitteðfyrra, enda Armani hvort tveggja, en þó er mikill munur og oh, þetta er svo góð lykt.
Ég fékk tvær peysur sem passa svona líka vel, og trefil handgerðan af Imbu systur í Danmörku, eyrnalokka og svo þetta hér, svo nú getur maður eldað án nokkurrar afsökunar.
Íslenski textinn við Feliz navidad er hræðilegur.
Ég fékk tvær bækur, Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein og svo ljóð og Samuel Taylor Coleridge - The Major Works, en ég elska hann. (omg tótalý sko). Þeirri bók fylgdi einnig á DVD, uppáhalds jóladagatalið mitt, Á baðkari til Betlehem. Takk Ævar :) Sirrý gaf mér svo akkúrat það sem mig langaði í úr gallerí Grúsku, krossinn sem ég dáleiddist af um daginn, og spennu í stíl. Muchas gracias amiga. :)
Já, svo fékk maður meira, en það er held ég óþarfi að telja það allt upp hér. Já bíddu bíddu, seint í gærkvöldi sagði pabbi svo: "Það er ein gjöf eftir!" og allir supu hveljur, þyrstir í fleiri pakka, "já, þetta er svona til allra frá öllum." Eftirvæntingin var ótrúleg, pabbi fór niður og kom upp með gjöfina, sem var vefmyndavél, eða webcam eins og einhverjir vilja kalla það. Já, ég er mjög ánægð með þetta alltsaman, þó er jólasnjónum ekki fyrir að fara, það eru eldrauð jól, dumbrauð skulum við frekar segja.
Lítið fer fyrir jólaboðum, enda ekki margir ættingjar hér á Akureyri. Reyndar hefur lítið tíðkast í mínum fjölskyldum að halda jólaboð. Hver er tilgangurinn með því að belgja sig út af kökum og gotteríi og þykjast svo ætla að fara í heilsuátak eftir áramót? Nei, ég held að það sé best að borða bara jafnlítið og maður er búinn að gera vanalega, annars blæs maður út helmingi hraðar en ella.
Jæja, jólaröfli er lokið í þetta sinn. Gleðileg jól áfram.
Unnur Birna 17:43 #