fimmtudagur, september 22, 2005
Þessa frétt rakst ég á á mbl.is í dag:
Tveimur eggjum kastað í Stjórnarráðið."Maður á fertugsaldri kastaði tveimur eggjum í Stjórnarráðið við Lækjargötu um klukkan 13:19 í dag. Lögreglumaður, sem var á vakt inni í húsinu, varð mannsins var. Fór hann út og handtók manninn, sem að verknaði loknum hafði komið sér fyrir í strætisvagnaskýli við Hverfisgötu.
Maðurinn var færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem skýrsla var tekin og hann látinn gera grein fyrir máli sínu. Búið er að sleppa manninum en líklegt er að hann fái sekt vegna brotsins, sem telst alvarlegt, að sögn lögreglunnar í Reykjavík."
Þessi maður er náttúrulega stórhættulegur. Að þeir skuli hafa sleppt honum. Svona menn sko...! Algerir glæpamenn. Að henda eggjum í eins heilaga byggingu og stjórnarráðið. (Æ, hvað er það aftur...? Já! Jájájájá) Ég meina, þessi maður gæti drepið næsta mann sem hann mætir! Lokið hann inni hjááálp!! Hann gæti kastað öðru eggi í stjórnarráðið!!
En svona í alvöru.
HVERT ER ÞETTA SAMFÉLAG AÐ STEFNA?!?!
Er bölvans STJÓRNARRÁÐIÐ orðið jafnheilagt og Vatíkanið? (Eða er hjallinn bara svona aumur og gæti hrunið ef egg lendir á því?) Hvað í alvörunni er fólk að meina? "Brotið er alvarlegt." Já fyrirgefðu, hvað er svona alvarlegt við það? Búum við á Kúbu eða í Kína? Er Ísland orðið harðstjórnareinræðisríki þar sem fólk má ekki beina skoðunum sínum gegn stjórninni eða ríkinu? Ég bara skil þetta ekki. Ef maður er á móti einhverju verður maður bara að sitja heima og þegja.
Ótrúlegt.
En áðan gerðist einn fyndnasti hlutur sem ég hef séð á ævi minni. Ég gekk að Fredda, ketti númer 5 og ætlaði að klappa honum þar sem hann lá á ofninum sofandi. Svo óheppilega vildi til, að akkúrat þegar ég var að fara að snerta köttinn hóstaði ég. Og allt í einu er kötturinn ekki lengur þarna og hönd mín snertir ...ekkert! Þá hafði kettinum brugðið svo mikið að hann spýttist upp og klístraðist á vegginn fyrir framan! Hann varð eins og harmóníka, krumpaðist allur saman og var fastur á veggnum. Ég horfði á hann furðu lostin og hjálpaði honum síðan, tók hann úr veggnum, og greyið hnerraði á fullu, dauðmeiddi sig náttúrulega í nefinu. Ég var að hugsa hvort hann hefði ekki rotast, þetta var algert fallbyssuhögg. Ég fékk auðvitað hláturskast og öll fjölskyldan. Vá, þetta þyrfti svo að vera til á video.
Jæja, Ævar er búinn að vera að bralla eitthvað í allan dag og ég verð að fara að vita hvað hann er að gera.
Passaðu þig á eggjunum.
Unnur Birna 19:43 #