
sunnudagur, apríl 20, 2003
Tjah, það er gott að geta náð svona vel til fólks! Bara með einu litlu orði, ef þetta er þá orð. Hljóð ölluheldur... Ég held að ég haldi mig bara við það að skrifa svona stutt og laggott "blogg" eins og bleh-ið, það skrifa allir ritdóm um það en ekki annað sem ég skrifa (sem er svo vandað og mikið í lagt). En það eru einungis snillingar sem geta skrifað heilan ritdóm um hljóðið sem er ritað "bleh". En æðislegt!!
En nóg um það, ég er núna í Garðabænum (aftur) í húsi systur mömmu sem er á Spáni með fjölskyldu sinni. Við spændum hingað og sprændum á páskadegi, en páskamáltíðin var nú ekki mikil um sig, Cheerios og þ.h. Æðislegt. Svo ætla ég að vera eftir hér á Suð-Vesturhorni Íslands og vera menningarleg mjög, fara á listasöfn með ömmu og í bíó og ekki má gleyma kaffihúsaröltinu. :o)
En hvað um það, ég er að fara í fermingarveislu á morgun hjá frænda mínum honum Jökli. Það verður ... eflaust skemmtilegt, rétt eins og flestar fermingarveislur. Mín var þó ekki eins og flestar fermingarveislur. Veislan var garðveisla og stóð yfir eina helgi. Allir ættingjar allsstaðar af landinu komu og gistu í garðinum eða í næsta nágrenni. Þetta var um Jónsmessuna, þegar sólin aldrei sest, og við fórum með alla hersinguna upp á Ólafsfjarðarmúla til að sjá sólina setjast ekki. Æ, hvað það er gaman að rifja þetta upp! Annan í veislu fórum við svo með allt liðið til Hríseyjar og svo var grillað í Kjarnaskógi. Alveg svakalega mikið fjör!
Ég er nú bara að gefa því fólki sem þóknast að koma hér inn á síðuna mína smá innsýn í veisluhald fjölskyldna minna. Það eru til fleiri tegundir af fermingarveislum, ekki bara þær veislur sem fólk kemur inn í hús, hakkar í sig sætabrauð, talar ekki við nokkurn mann vegna ókunnugleika og fer svo pakksaddur heim. Ekki það að svona veislur séu eitthvað verri en annað, veislur eru misjafnar...
En ég ætla að hætta að tjá mig hérna um fermingarveislur. Næst tek ég fyrir brúðkaupsveislur, því næst skírnarveislur og síðan jarðarfararveislur (öðru nafni erfidrykkjur.) ;o)
Unnur Birna 22:07 #

